FRÉTT LAUN OG TEKJUR 22. FEBRÚAR 2022

Laun hækkuðu að jafnaði um 3,7% í janúar 2022 samkvæmt launavísitölu. Hækkun er að mestu vegna launahækkana samkvæmt kjarasamningum sem náðu til meirihluta launafólks. Síðastliðna tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 7,3%.

Í kjarasamningum sem gerðir voru árin 2019 og 2020, og kváðu á um launahækkanir sem komu til framkvæmda nú í janúar, var áhersla á hækkun lægstu launa með krónutöluhækkunum og sérstakri hækkun kauptaxta. Algengustu hækkanir í janúar 2022 voru á bilinu 17 til 25 þúsund krónur fyrir fullt starf. Flestir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði renna út á seinni hluta þessa árs á meðan flestir samningar á opinbera markaðnum renna út fyrri hluta árs 2023.

Síðastliðin þrjú ár, eða frá janúar 2019 til janúar 2022, hefur launavísitalan hækkað um 24,2%. Samningar komu til framkvæmda á ólíkum tímapunktum, til að mynda komu samningar á almennum vinnumarkaði fyrst til framkvæmda í apríl 2019 á meðan sambærilegir samningar á opinberum markaði komu til framkvæmda á árinu 2020 og kváðu því á um hækkun bæði fyrir árið 2019 og 2020.

Í kjarasamningum er einnig kveðið á um styttingu vinnuviku fyrir hluta launafólks en þá fækkar vinnustundum að baki launa meðan laun haldast óbreytt. Sá hluti styttingar telst ígildi launabreytinga, það er sú stytting sem er umfram niðurfellingu á neysluhléum. Í kjarasamningum Samiðnar, Félags hársnyrtisveina (FHS), Grafíu, VM, Matvís og RSÍ, sem gerður var í maí 2019, er kveðið á um að þann 1. janúar 2022 gætu starfsmenn, með samþykki meirihluta í atkvæðagreiðslu, stytt vinnuvikuna samhliða niðurfellingu formlegra kaffitíma hafi sú breyting ekki þegar átt sér stað.

Áhrif vegna styttingu vinnuvikunnar í janúar 2022 á launavísitölu eru óveruleg. Hins vegar eru metin áhrif á launavísitölu alls 1,8 prósentustig frá því áhrifin komu fyrst fram eða frá síðari hluta árs 2019. Fjallað hefur verið nánar um vinnutímabreytingar og áhrif þeirra á launavísitölu í fyrri fréttum Hagstofunnar árin 2020 og 2021, síðast 21. desember 2021.

Um launavísitölu Hagstofunnar
Samkvæmt lögum um launavísitölu nr. 89/1989 á launavísitalan að sýna launabreytingar fyrir fastan vinnutíma. Við framkvæmd mælinga hefur því verið stuðst við það sjónarmið löggjafans að um sé að ræða verðvísitölu og er vinnutíma og samsetningu hópsins sem liggur að baki útreikningum haldið föstum á milli mælinga. Þó að almennt hafi vinnutímabreytingar ekki áhrif á launavísitölu gildir ekki það sama um styttingu vinnuvikunnar en í frumvarpi til laga um launavísitölu kemur fram að breytingar vinnutíma og samsetningu hans skuli ekki hafa áhrif á launavísitölu nema ef um sé að ræða samningsbundnar breytingar sem jafna megi til launabreytinga.

Launavísitala mælir breytingar reglulegra launa sem greidd eru fyrir umsaminn vinnutíma, hvort sem um er að ræða greidda dagvinnu eða vaktavinnu. Í reglulegum launum er tekið tillit til hvers konar álags- og bónusgreiðslna, svo sem fasta/ómælda yfirvinnu, sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili. Tilfallandi yfirvinnugreiðslur eru ekki hluti reglulegra launa né aðrir óreglulegir launaliðir, eins og eingreiðslur eða leiðréttingar, sem ekki eru gerðir upp á hverju útborgunartímabili hjá launagreiðanda. Niðurstöður launavísitölu byggja á launagögnum Hagstofunnar. Nánari upplýsingar um aðferðir launavísitölu má finna í lýsigögnum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.