FRÉTT LAUN OG TEKJUR 07. SEPTEMBER 2012

Vinsamlega athugið að þessari fréttatilkynningu var breytt 14. 12 2012 9:00 og aftur 2. 9. 2013 9:00 frá upprunalegri útgáfu. 

Laun hækkuðu um 1,4% frá fyrri ársfjórðungi
Regluleg laun voru að meðaltali 1,4% hærri á öðrum ársfjórðungi 2012 en í ársfjórðungnum á undan. Frá fyrra ári hækkuðu laun um 9,6% að meðaltali, hækkunin var 9,3% á almennum vinnumarkaði og 10,5% hjá opinberum starfsmönnum.

Laun hækkuðu mest í fjármálaþjónustu
Frá fyrri ársfjórðungi mældist hækkun reglulegra launa mest í fjármálaþjónustu, lífeyrissjóðum og vátryggingum eða um 1,9%. Á sama tímabili hækkuðu laun um 0,8% í atvinnugreininni byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Frá fyrra ári hækkuðu laun einnig mest í fjármálaþjónustu eða um 12,6% og minnst í byggingarstarfsemi um 7,0%.

Þá hækkuðu laun stjórnenda mest frá fyrri ársfjórðungi eða um 1,8% en laun verkafólks hækkuðu að meðaltali um 0,1% á sama tímabili. Laun skrifstofufólks hækkuðu mest frá fyrra ári eða um 10,7% en laun iðnaðarmanna hækkuðu minnst, um 8,2%.

Kjarasamningar á tímabilinu
Í vísitölu launa á öðrum ársfjórðungi 2012 gætir áhrifa hækkana sem komu til framkvæmda á fyrsta ársfjórðungi og kveðið var á um í kjarasamningum sem undirritaðir voru á árinu 2011. Í kjarasamningi á milli aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins var kveðið á um hækkun á kjarasamningsbundnum kauptöxtum um 11.000  krónur og almenna hækkun launataxta um 3,5% þann 1. febrúar 2012. Sambærilegir samningar voru gerðir milli fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, við stærstu stéttarfélög opinberra starfsmanna og sambands íslenskra sveitarfélaga við stærstu stéttarfélög opinberra starfsmanna, en í þeim samningum kom almenn launahækkun um 3,5% til framkvæmda 1. mars 2012. Áhrif þessara hækkana koma að fullu fram í öðrum ársfjórðungi ársins 2012.

Í samningunum árið 2011 var einnig kveðið á um sérstakt 10.000 króna álag á orlofsuppbót sem kom til greiðslu í júní 2011. Frá og með júní 2012 gætir ekki lengur áhrifa þessarar álagsgreiðslu. Nánar um áhrif eingreiðslna má finna í minnisblaði um áhrif eingreiðslna á launavísitölu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.