Niðurstöður úr lífskjararannsókn Hagstofu Íslands benda til þess að aðgengi að ýmiss konar þjónustu hafi verið verra að mati fólks árið 2012 en það var árið 2007. Breytingarnar felast einkum í því að þeim fækkar sem telja aðgengið mjög gott en fjölgar sem telja það frekar gott. Breytingarnar eru yfirleitt meiri í dreifbýli en í þéttbýli. Árið 2012 mat þó allur þorri svarenda aðgengi sitt að mældum þjónustuþáttum sem frekar eða mjög gott, eða á bilinu frá 71,5% fyrir almenningssamgöngur í dreifbýli til 98,9% fyrir grunnskóla í þéttbýli. Einhver frávik voru þó frá þessu heildarmynstri hvað varðar einstaka þjónustuþætti.
Í þéttbýli lækkaði hlutfall þeirra sem töldu aðgengi að heilsugæslu vera frekar eða mjög slæmt úr 11,2% í 5,2% og þeim sem töldu aðgengið mjög gott, úr 57,1% í 48,4%. Að sama skapi fjölgaði þeim sem töldu aðgengið frekar gott úr 31,7% í 46,5%. Í dreifbýli breyttist hlutfall þeirra sem töldu aðgengi að heilsugæslu frekar eða mjög slæmt lítið en hlutfall þeirra sem taldi aðgengið mjög gott lækkaði úr 51,1% í 38,9%.
Þá fækkaði þeim sem töldu aðgengi að almenningssamgöngum mjög gott, úr 48,1% í 42,7% í þéttbýli og úr 35,5% í 28,4% í dreifbýli. Í þéttbýli fækkaði þeim sem töldu aðgengi frekar slæmt úr 14,7% í 9% en í dreifbýli fækkaði þeim sem töldu aðgengið mjög slæmt úr 14,3% í 10,1%.
Í þéttbýli fækkaði þeim sem töldu aðgengi að póstþjónustu vera frekar eða mjög slæmt úr 20,5% í 8,7%, en í dreifbýli fækkaði hinsvegar mest í hópi þeirra sem töldu aðgengið mjög gott úr 65,3% í 46%.
Litlar breytingar urðu á mati íbúa í þéttbýli á aðgengi að matvöruverslun. Í dreifbýli fækkaði hinsvegar þeim sem töldu aðgengið mjög gott, úr 64,1% í 50,8%, en einnig þeim sem töldu aðgengið frekar slæmt, úr 8,8% í 4,3%.
Fyrirvari um túlkun á niðurstöðum
Mælingin endurspeglar huglægt mat fólks á aðgangi að þjónustu og mælir því ekki aðgengi að þjónustu á hlutlægan hátt. Að því marki sem það er langvarandi munur á aðgengi á milli þéttbýlis og dreifbýlis er sennilegt að huglægt mat endurspegli að einhverju leyti viðmið sem kunna að mótast af því þjónustustigi sem það er vant.