Hlutfall ungs fólks sem býr með foreldrum sínum hefur hækkað á undanförnum árum. Á milli 2005 og 2015 hækkaði hlutfallið úr 48,1% í 56,9% í aldurshópnum 20–24 ára. Í aldurshópnum 25–29 ára hækkaði hlutfallið um 5,9 prósentustig á milli 2009 og 2015, fór úr 15,5% í 21,4%.
Helsta breytingin átti sér stað á meðal kvenna á aldrinum 20–24 ára, hlutfallið hækkaði úr 36,7% árið 2005 í 54,7% árið 2015. Hlutfallið var eftir sem áður hærra á meðal karla á sama aldri árið 2015, eða 59%, en þó hafði dregið saman með kynjunum frá 2005. Breytingin hjá 25–29 ára var fyrst og fremst á meðal karla, en hlutfall þeirra sem bjuggu í foreldrahúsum hækkaði úr 19,2% árið 2009 í 27,4 árið 2015.
Ísland var með sjötta lægsta hlutfall 20–24 ára sem deildi heimili með foreldrum sínum árið 2015 samanborið við önnur Evrópulönd, eða 56,9%. Hlutfallið var umtalsvert lægra á hinum Norðurlöndunum, eða á bilinu frá 24,5% í Danmörku til 34,8% í Svíþjóð. Ísland var með sjöunda lægsta hlutfallið í aldurshópnum 25–29 ára, eða 21,4%, en auk Norðurlandanna var hlutfallið lægra í Frakklandi og Hollandi.
Félagsvísar: Ungt fólk í foreldrahúsum — Hagtíðindi