Árið 2013 nam byrði húsnæðiskostnaðar meðaleinstaklings um 16,8% af ráðstöfunartekjum og hafði þá haldist nokkuð stöðug frá 2006. Undirliggjandi voru þó allnokkrar breytingar á húsnæðisbyrði fólks með mismunandi stöðu á fasteignamarkaði, þ.e. byrðin hækkaði hjá leigjendum en lækkaði hjá fólki sem bjó í eigin húsnæði.

Árið 2013 greiddu 8,8% húsnæðiskostnað sem var 40% eða meira af ráðstöfunartekjum, en það skilgreinist sem verulega íþyngjandi húsnæðiskostnaður. Árið 2006 var þetta hlutfall hæst 14,3% en hefur lækkað síðan þá. Þróunin var þó ólík eftir hópum. Hlutfallið hækkaði á meðal leigjenda en lækkaði á meðal eigenda, hækkaði á meðal heimila með einn fullorðinn einstakling og börn en lækkaði hjá heimilum tveggja fullorðinna með tvö börn, hækkaði meðal fólks yngra en 30 ára en lækkaði á öðrum aldursbilum. Þá var íþyngjandi húsnæðiskostnaður mun tíðari hjá fólki í lægsta tekjufimmtungi en hjá tekjuhærri hópum.

Byrði húsnæðiskostnaðar og hlutfall fólks með íþyngjandi húsnæðiskostnað er í meðallagi á Íslandi samanborið við önnur Evrópulönd árið 2012. Byrðin var áberandi hæst í Grikklandi (31,0%) en næst á eftir komu Holland með 26,7% og Danmörk með 25,5%.

Byrði húsnæðiskostnaðar 2004-2013 - Hagtíðindi

Talnaefni