Fjórðungur heimila á Íslandi átti erfitt með að ná endum saman árið 2021. Fjárhagsleg byrði húsnæðiskostnaðar var þung hjá tæplega 19% heimila árið 2021 sem er sambærilegt við árið 2020. Á sama tíma lækkaði hins vegar fjárhagsleg byrði húsnæðiskostnaðar á meðal heimila í eigin húsnæði úr rúmum 14% í tæp 10%. Árið 2021 bjuggu 4,2% heimila við skort á efnislegum gæðum, þar af 10,9% heimila á leigumarkaði en einungis 2,4% heimila sem búa í eigin húsnæði.

Um 22% heimila á landinu bjó í leiguhúsnæði árið 2021. Hlutfall heimila á leigumarkaði var um 28% árin 2011 og 2012 en rúmlega 31% árin 2017 og 2018. Síðan þá hefur hlutfallið farið lækkandi.

Um er að ræða bráðabirgðaniðurstöður úr lífskjararannsókn Hagstofu Íslands.

Hlutfall heimila sem áttu erfitt með að ná endum saman aldrei lægra
Þegar á heildina er litið áttu 24,1% heimila á Íslandi erfitt með ná endum saman árið 2021. Aldrei áður hefur hlutfallið mælst jafnlágt. Þessar niðurstöður eru að einhverju leyti í samræmi við tölur Hagstofunnar um kaupmátt ráðstöfunartekna heimila en hann jókst á sama tímabili. Til samanburðar áttu um 51% heimila í erfiðleikum með að ná endum saman árið 2011 og var hlutfallið yfir 40% á milli áranna 2010 og 2015.

Þegar horft er til mismunandi heimilisgerða voru erfiðleikar við að ná endum saman á um helmingi heimila hjá einum fullorðnum með eitt eða fleiri börn á framfæri árið 2021 en á 16% heimila tveggja eða fleiri fullorðinna þar sem ekkert barn var búsett. Niðurstöðurnar benda því til þess að aukinn fjöldi fyrirvinna dragi úr erfiðleikum við að ná endum saman en að aukinn fjöldi barna á framfæri ýti undir erfiðleika við að láta enda ná saman.

Fjárhagsleg byrði húsnæðiskostnaðar þyngri hjá heimilum á leigumarkaði
Í lífskjararannsókninni er spurt um fjárhagslega byrði húsnæðis heimilisins, þar með talið afborganir húsnæðislána, leigu, tryggingar, fasteignagjöld, viðhald og viðgerðir og hvort sú byrði sé þung, nokkur eða engin.

Árin 2010 - 2014 var hærra hlutfall sem taldi byrði húsnæðiskostnaðar þunga á meðal eigenda en á meðal leigjenda en síðan þá hefur hlutfall heimila með þunga byrði húsnæðiskostnaðar verið hærra á meðal leigjenda. Árin 2020 og 2021 stóð hlutfall heimila á leigumarkaði með þunga byrði húsnæðiskostnaðar í stað og var tæp 19%. Samkvæmt vísitölu leiguverðs (sem gefin er út af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun) má sjá merkjanlega breytingu á þróun vísitölunnar á sama tímabili sem styður við þessar niðurstöður. Á sama tíma lækkaði metin byrði á meðal eigenda úr 14,2% í 9,7%.

Skortur á efnislegum gæðum sjaldgæfur hjá heimilum í eigin húsnæði
Afar sjaldgæft er að heimili sem búi í eigin húsnæði skorti efnisleg gæði og hefur hlutfallið verið á bilinu 2,1% til 4,0% árin 2016 – 2021. Hlutfallið var hærra á sama tímabili fyrir heimili sem voru á leigumarkaði eða á bilinu 10,6% til 17,2%, hæst árið 2016. Verulegur skortur efnislegra gæða mælist vart á meðal heimila í eigin húsnæði og hefur leitnin verið frekar niður á við. Alls bjuggu 2,5% heimila á leigumarkaði við verulegan skort efnislegra gæða árið 2021.

Samkvæmt lífskjararannsókninni teljast heimili skorta efnisleg gæði ef þrennt eða fleira af eftirfarandi á við um heimilið:

  • Hefur lent í vanskilum húsnæðislána eða annarra lána vegna fjárskorts á síðastliðnum tólf mánuðum.
  • Hefur ekki efni á að fara árlega í vikulangt frí með fjölskyldunni.
  • Hefur ekki efni á kjöti, fiski eða sambærilegri grænmetismáltíð að minnsta kosti annan hvern dag.
  • Getur ekki mætt óvæntum útgjöldum (sem voru að upphæð 180 þúsund krónur árið 2018).
  • Hefur hvorki efni á heimasíma né farsíma.
  • Hefur ekki efni á sjónvarpstæki.
  • Hefur ekki efni á þvottavél.
  • Hefur ekki efni á bíl.
  • Hefur ekki efni á að halda húsnæðinu nægjanlega heitu.
Heimili telst búa við verulegan skort á efnislegum gæðum ef fjögur eða fleiri atriði eiga við um það.

Um gögnin
Niðurstöðurnar eru unnar úr lífskjararannsókn Hagstofu Íslands. Um er að ræða langsniðsrannsókn þar sem haft er samband við hátt í fimm þúsund heimili árlega. Frekari upplýsingar um lífskjararannsóknina má lesa í lýsigögnum. Niðurstöður áranna 2019 – 2021 eru bráðabirgðatölur. Í því felst að talnaefnið er unnið á grundvelli grunngagna rannsóknarinnar þannig að endanlegar breytur eru nálgaðar eins og hægt er. Endanlegar niðurstöður verða birtar þegar búið verður að sannreyna gagnasett áranna í samstarfi við Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Vogir íslensku lífskjararannsóknarinnar voru endurskoðaðar og þeim breytt fyrir gagnasöfnun ársins 2017. Það veldur broti í tímaröð á metnum fjölda heimila á landinu og getur verið varasamt að bera saman fjöldatölur heimila fyrir og eftir brot í tímaröð.

Talnaefni