FRÉTT LÍFSKJÖR 10. JÚLÍ 2018

Rúmlega helmingur fjölskyldna hefur lága greiðslubyrði, eða undir 10% af ráðstöfunartekjum. Í þeim hópi eru meðal annars þeir sem eiga skuldlausa fasteign og þeir sem eiga ekki fasteign. Um 60% fjölskyldna með greiðslubyrði undir 10% af ráðstöfunartekjum eiga ekki fasteign. Fjölskyldum með lága greiðslubyrði fjölgaði hlutfallslega á tímabilinu 2015–2018. Tæplega 7% fjölskyldna voru með greiðslubyrði af ráðstöfunartekjum yfir 60% árið 2015 og hefur farið hlutfallslega fækkandi fram til ársins 2018.

Greiðslubyrði skulda sem hlutfall af ráðstöfunartekjum er einn mælikvarði á fjárhagsstöðu fjölskyldunnar og gefur til kynna hversu vel fjölskyldan er í stakk búin til að greiða af lánum. Hafa ber í huga að einungis er um að ræða greiðslubyrði skulda og því er ekki hægt að alhæfa almennt um kjör fjölskyldna úr frá niðurstöðunum. Til að mynda getur fjölskylda á leigumarkaði skuldað lítið og þar af leiðandi haft lága greiðslubyrði vegna skulda en tekjur ekki nægt fyrir leigu og öðrum framfærslukostnaði.

Um útgáfuna
Niðurstöður sem hér er greint frá eru hluti af tölfræðiverkefni um skuldir heimilanna sem stjórnvöld fólu Hagstofunni. Ítarlegt talnaefni um skuldastöðu og greiðslubyrði vegna skulda árin 2015 til 2018 eftir aldri, fjölskyldugerð og tíundahlutum ráðstöfunartekna, eigna og eiginfjár má finna á vef Hagstofunnar. Einnig er gerð grein fyrir helstu niðurstöðum og aðferðum í Hagtíðindum. Niðurstöður ársins 2018 eru bráðabirgðaniðurstöður.

Skuldastaða og greiðslubyrði fjölskyldna 2015–2018 — Hagtíðindi

Talnaefni

 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.