Árið 2013 bjuggu 6,7% Íslendinga við skort á efnislegum lífsgæðum. Hlutfallið lækkaði umtalsvert í aðdraganda hrunsins, fór úr 7,4% árið 2007 í 2,5% árið 2008, en jókst eftir það. Hlutfallið var þó ekki hærra á árunum 2010-2013 en það hafði verið árin 2004-2007. Í samanburði við önnur lönd á Evrópska efnahagssvæðinu var hlutfall íbúa sem býr við skort á efnislegum lífsgæðum á Íslandi það sjötta lægsta  árið 2012.


Árið 2013 skorti 7,5% kvenna efnisleg lífsgæði en 5,9% karla. Þá var tíðnin lægst í elsta aldursbilinu, 65 ára og eldri. Sé horft til undanfarinna ára hækkaði hlutfallið hinsvegar meira á öðrum aldursbilum eftir 2008 og mest á bilinu 25–34 ára. Árið 2013 skorti 25,2% heimila einhleypra með börn efnisleg lífsgæði. Næst á eftir komu heimili einhleypra og barnlausra með 11,7%. Hlutfallið var lægra á meðal þeirra sem tilheyrðu öðrum heimilisgerðum.

Þá var hlutfallið hátt á meðal atvinnulausra og meðal öryrkja, eða 21,5% fyrrnefnda hópsins og 24,6% þess síðarnefnda árið 2013. Til samanburðar má nefna að hlutfallið var aðeins 4,1% á meðal fólks í fullu starfi en 7,4% á meðal námsfólks. Þá er samband á milli skorts á efnislegum lífsgæðum og menntunar. Lægst var hlutfallið á meðal háskólamenntaðra (4,1%) en hæst á meðal þeirra sem aðeins höfðu lokið grunnmenntun (7,9%).

Félagsvísar: Skortur á efnislegum lífsgæðum 2004–2013 – Hagtíðindi

Talnaefni