FRÉTT MANNFJÖLDI 25. JANÚAR 2024

Hagstofan Íslands mun gefa út mannfjöldatölur byggðar á endurbættri aðferð í mars 2024 þar sem viðmiðunartíminn er 1. janúar 2024. Samtímis verður gefin út endurskoðuð tímaröð aftur til ársins 2011. Hingað til hafa tölur um íbúafjölda verið byggðar á skráningu lögheimils í þjóðskrá en með endurbættri aðferð er búseta metin út frá breiðari grunni opinberra skráa.

Unnið hefur verið að endurbættum aðferðum í kjölfar manntals Hagstofunnar frá 1. janúar 2021 sem sýndi að fjöldi landsmanna var ofmetinn um 10 þúsund í hagtölum um mannfjölda.

Vegna endurskoðunar á aðferð við mat mannfjölda á Íslandi munu tölur frá fjórða ársfjórðungi 2023 ekki koma út í janúar eins og undanfarin ár. Stefnt er að því að ársfjórðungstölur mannfjöldans fyrir fjórða ársfjórðung 2023 og fyrsta ársfjórðung 2024 verði birtar um mitt ár 2024 samhliða birtingu á tímaröð ársfjórðungstalna frá árinu 2011 og verði þar eftir birtar reglulega.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.