FRÉTT MANNFJÖLDI 26. MARS 2025

Árið 2024 fluttust 4.044 fleiri til Íslands en frá landinu. Það eru færri en árið 2023 þegar aðfluttir umfram brottflutta voru 6.789 og rúmlega helmingi færri en metárið 2022 þegar flutningsjöfnuður var 8.660.

Á síðasta ári fluttust 19.789 til landsins og er það þriðji mesti fjöldi síðan mælingar hófust. Fjöldinn var meiri bæði árið 2023 þegar 21.560 fluttu til landsins sem og árið 2022 þegar 22.209 fluttu hingað til lands. Þá fluttust 15.745 frá landinu árið 2024 og hafa aldrei fleiri flust frá landinu á einu ári. Árið á undan fluttust 14.771 frá landinu.

Ef einungis er litið til erlendra ríkisborgara var flutningsjöfnuður 4.183 manns sem er mikill samdráttur frá fyrra ári þegar flutningsjöfnuður erlendra ríkisborgara var 7.004. Árið 2022 var flutningsjöfnuður erlendra ríkisborgara 9.186 og hefur hann aldrei verið meiri. Flutningsjöfnuður á meðal íslenskra ríkisborgara var neikvæður en brottfluttir voru 139 fleiri en aðfluttir árið 2024. Flutningsjöfnuður íslenskra ríkisborgara var einnig neikvæður árið 2023 um 215.

Flestir íslenskir ríkisborgarar fluttust til Danmerkur
Af þeim 5.132 íslensku ríkisborgurum sem fluttu af landi brott árið 2024 fóru 3.615 til Danmerkur, Svíþjóðar eða Noregs. Flestir fluttu til Danmerkur, eða 2.037, en næst flestir til Svíþjóðar eða 1.046. Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu einnig frá þessum löndum eða 3.304 af 4.993. Flestir komu frá Danmörku eða 1.603. Flestir erlendir ríkisborgarar fluttust á sama tíma til Póllands eða 2.645 af 10.613. Þaðan komu líka flestir erlendir ríkisborgarar á síðasta ári eða 3.177 af 14.796. Næst flestir erlendir ríkisborgarar fluttust frá Úkraínu árið 2024 eða 1.230 manns.

Rúmlega 37% aðfluttra og tæplega 39% brottfluttra á aldursbilinu 20–29 ára
Eins og síðustu ár var fjölmennasti hópur aðfluttra og brottfluttra árið 2024 á aldrinum 20–29 ára. Tæplega 39% brottfluttra var á þessu aldursbili og rúmlega 37% aðfluttra. Af einstökum árgöngum voru 25 ára einstaklingar fjölmennasti hópurinn af brottfluttum, eða 738, sem og fjölmennasti hópurinn af þeim sem fluttust til landsins eða 936.

Hagstæðasti flutningsjöfnuðurinn innanlands var á höfuðborgarsvæðinu
Þegar aðeins er horft til flutninga innanlands á milli landshluta voru fjórir landshlutar með hagstæðan flutningsjöfnuð árið 2024. Flutningsjöfnuður var hagstæðastur á höfuðborgarsvæðinu en þangað fluttu 932 umfram brottflutta frá öðrum landshlutum. Þar á eftir kom Suðurland með flutningsjöfnuð upp á 636. Einnig var flutningsjöfnuður hagstæður á Vesturlandi (235) og Norðurlandi eystra eða um 147. Í öðrum landshlutum var flutningsjöfnuður neikvæður þegar horft er til innanlandsflutninga. Óhagstæðastur var hann á Suðurnesjum (-1.848) og skýrist það að mestu af flutningum úr Grindavíkurbæ. Einnig var flutningsjöfnuður neikvæður á Norðurlandi vestra (-45), Austurlandi (-33) og Vestfjörðum (-24).

Árið 2024 var flutningsjöfnuður á milli landa jákvæður í öllum landshlutum þar sem aðfluttir frá öðrum löndum voru fleiri en brottfluttir úr landi. Langflestir þeirra 4.044 einstaklinga sem fluttust til Íslands, umfram brottflutta, settust að á höfuðborgarsvæðinu eða 2.766. Þegar litið er til flutninga, bæði innanlands og utan, voru allir landshlutar fyrir utan tvo með jákvæðan flutningsjöfnuð árið 2024.

Aðferðir
Hagstofan metur búferlaflutninga annars vegar á grundvelli upplýsinga um breytingar á lögheimili í íbúaskrá Þjóðskrár og hins vegar á mati Hagstofunnar á búsetu einstaklinga, sjá greinargerð. Búferlaflutningar sem gerðir eru upp á grundvelli þjóðskrárupplýsingar eru miðaðir við skráningardag í þjóðskrá en ekki hvenær flutningur átti sér stað. Hins vegar er miðað við matdagsetningu Hagstofunnar þegar búferlaflutningur er metinn eftir aðferð Hagstofunnar. Þetta hefur gilt frá árinu 2011 en fyrir þann tíma var notast við upplýsingar um breytingar á lögheimili í þjóðskrá.

Þegar land sem flutt er til frá Íslandi er óþekkt er notast við upplýsingar um ríkisfang þegar um einstaklinga með erlent ríkisfang er að ræða en fyrir íslenska ríkisborgara er þeim varpað af handahófi til landa sem hafa skráðan flutning annara íslenskra ríkisborgara.

Talnaefni
Búferlaflutningar innanlands
Búferlaflutningar milli landa

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.