Þann 1. janúar 2025 bjuggu 244.536 manns á Stór-Reykjavíkursvæðinu, þ.e. samfelldri byggð frá Hafnarfirði til Mosfellsbæjar eða tæplega 63% mannfjöldans.
Þéttbýlisstaðurinn Selfoss og nágrenni fór í fyrsta sinn yfir 10.000 einstaklinga um síðustu áramót. Þar með voru þrír þéttbýlisstaðir með 10.000-99.999 íbúa, Keflavík og Njarðvík með 22.377 íbúa, Akureyri og nágrenni með 20.159 íbúa og Selfoss og nágrenni með 10.478 íbúa. Samanlagt bjuggu 53.014 einstaklingar á þessum stöðum sem jafngildir 13,6% mannfjöldans. Í strjálbýli bjuggu 21.498 einstaklingar eða 5,5% mannfjöldans. Í strjálbýli eru alls 39 staðir með 50-199 íbúa en þar býr aðeins 1,0% mannfjöldans.
Konur frekar í þéttbýli
Kynjahlutfall er nokkuð breytilegt eftir þéttbýlisstigi. Á Stór-Reykjavíkursvæðinu voru 1.032 karlar á hverjar 1.000 konur. Þetta hlutfall eykst körlum í vil eftir því sem þéttbýlið verður fámennara þótt ekki sé um að ræða fyllilega línulegt samband. Í fámennustu þéttbýlisstöðunum, með færri en 300 íbúa, voru 1.133 karlar á móti hverjum 1.000 konum en í strjálbýli var hlutfallið lægra eða 1.121 karlar á móti 1.000 konum.
Um gögnin
Hagstofan endurskoðar mörk þéttbýlisstaði á fimm ára fresti, á árunum sem enda á 0 eða 5, og voru ný mörk dregin fyrir 1. janúar 2025. Mörkin eru fundin með því að tengja saman staðföng sem eru 200 metra eða skemur hvert frá öðru. Þéttbýlisstaður getur þannig náð yfir byggðakjarna í fleiri en einu sveitarfélagi. Ein breyting varð á aðferð Hagstofunnar en nú þarf að lágmarki að vera búið í 10 staðföngum til þess að byggðakjarni geti myndast. Einn byggðakjarni fór yfir 200 íbúa markið og fór því úr því að teljast strjálbýli yfir í að teljast þéttbýli en það var Tjarnabyggð í Sveitarfélaginu Árborg.