FRÉTT MANNTAL 13. JANÚAR 2023

Vinsamlegast athugið að þessari fréttatilkynningu var breytt 19. apríl 2023 frá upprunalegri útgáfu.

Hlutfall háskólamenntaðra íbúa landsins 25 ára og eldri hækkaði frá síðasta manntali, var 27,7% árið 2011 en 34,6% í manntalinu 2021. Hlutfall með starfsmenntun á framhaldsskólastigi var hins vegar 24,6% árið 2011 en 22,4% árið 2021 og hafði því lækkað. Í dag birtir Hagstofan niðurstöður um landsmenn eftir menntunarstöðu 1. janúar 2021. Þetta er þriðja fréttin í útgáfuröð manntalsins.

Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

  • Háskólamenntaðir íbúar landsins voru 34,6% í manntalinu 2021 en 27,7% árið 2011.
  • Hlutfall háskólamenntaðra íbúa hækkaði í nær öllum sveitarfélögum landsins á meðan hlutfall íbúa með starfsmenntun á framhaldsskólastigi sem hæsta stig menntunar lækkaði í yfir helmingi sveitarfélaga.
  • Flestir þeirra sem höfðu starfsmenntun á framhaldsskólastigi sem hæstu menntun voru á aldrinum 55-64 ára.
  • Mikill munur var innan höfuðborgarsvæðisins á hlutfalli háskólamenntaðra eftir smásvæðum, allt frá 15,6% til 62,5%.
  • Konur með háskólamenntun voru talsvert fleiri en karlar á aldrinum 25-64 ára en karlar voru fleiri á meðal 65 ára og eldri.
  • Hæst hlutfall háskólamenntaðra var á meðal innflytjenda frá Bandaríkjunum.

Í þessari frétt er miðað við íbúa 25 ára og eldri og hæstu menntunargráðu sem einstaklingur hafði lokið 1. janúar 2021. Ef einstaklingur hefur lokið menntun á framhaldsskólastigi og bætir við sig gráðu á háskólastigi er það eingöngu háskólagráðan sem telst. Þegar talað er um framhaldsskólamenntun er hvort tveggja átt við bóknám og starfsnám á framhaldsskólastigi en þegar talað er um starfsmenntun er eingöngu verið að tala um þá sem hafa lokið hæsta stigi á framhaldsskólastigi (eða viðbótarstigi, t.d. iðnmeistaranámi og vélstjórnarréttindum) í iðngreinum, sjúkraliðanámi o.s.fv.

Hæst hlutfall háskólamenntaðra á höfuðborgarsvæðinu
Háskólamenntaðir íbúar landsins 25 ára og eldri voru alls 84.770 í manntalinu 2021 eða 34,6%. Til samanburðar voru alls 56.278 (27,7%) íbúar á þeim aldri með háskólamenntun í manntalinu 2011. Þetta er 51% fjölgun háskólamenntaðra á milli manntala en heildarfjölgun íbúa 25 ára og eldri var 20,4% á sama tíma.

Af íbúum höfuðborgarsvæðisins var hlutfall háskólamenntaðra 41% í manntalinu 2021 og er það sá landshluti þar sem hlutfallið var hæst. Næst hæst var hlutfallið á Norðurlandi eystra. Lægst hlutfall háskólamenntaðra var á Suðurnesjum og á Vestfjörðum. Hlutfallið snýst við þegar horft er til þeirra sem hafa grunnmenntun sem hæsta stig menntunar en þar var hlutfallið hæst á Suðurnesjum og á Vestfjörðum og lægst á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi eystra.

Hlutfall háskólamenntaðra hækkaði á meðan hlutfall starfsmenntaðra lækkaði
Hlutfall háskólamenntaðra í manntalinu 2021 hækkaði í nær öllum sveitarfélögum landsins frá síðasta manntali árið 2011. Öðru máli gegndi um starfsmenntun á framhaldsskólastigi og viðbótarstigi en hlutfall þeirra sem voru með starfsmenntun sem hæstu gráðu lækkaði í 37 af 69 sveitarfélögum. Hæst hlutfall háskólamenntaðra árið 2021 var í Seltjarnarnesbæ, Garðabæ og Reykjavíkurborg. Í stærstu sveitarfélögunum lækkaði hlutfall íbúa með starfsmenntun mest í Seltjarnarnesbæ en þar hækkaði jafnframt hlutfall háskólamenntaðra mest eða um 10 prósentustig.

Karlar 67% þeirra sem höfðu starfsmenntun
Alls voru 54.735 íbúar landsins 25 ára og eldri með starfsmenntun á framhaldsskólastigi sem hæsta stig menntunar í manntalinu 2021. Talsvert fleiri karlar en konur voru með starfsmenntun sem hæsta menntunarstig. Fjölmennasti aldurshópurinn sem var með starfsmenntun á framhaldsskólastigi sem hæstu menntun var 55 til 64 ára hjá bæði körlum og konum eða alls 12.773 einstaklingar. Hlutfall starfsmenntaðra var 24,6% árið 2011 en 22,4% árið 2021 og hafði því lækkað. Fjölgun starfsmenntaðra 25 ára og eldri var 9,2% og hélst ekki í hendur við fjölgun íbúa á þessum aldri (20,4%).

Hæst hlutfall háskólamenntaðra á smásvæði í Vesturbæ Reykjavíkur
Hæst hlutfall háskólamenntaðra í manntalinu 2021 var á smásvæði í Vesturbæ Reykjavíkur (62,5%). Þegar þysjað er inn á höfuðborgarsvæðið á kortinu að neðan sést að þar er mikill munur á hlutfalli háskólamenntaðra eftir smásvæðum. Lægst hlutfall háskólamenntaðra á höfuðborgarsvæðinu var á smásvæði í Breiðholti (15,6%) en lægst hlutfall á landinu öllu var á smásvæði á Suðurnesjum (11,6%).

Konur fleiri en karlar á meðal háskólamenntaðra fram til 65 ára aldurs
Alls voru 49.058 konur og 35.712 karlar 25 ára og eldri með háskólamenntun í manntalinu 2021. Flestir voru í aldurshópnum 35-44 ára og voru konur tæp 60% háskólamenntaðra í þessum aldursflokki. Konur voru talsvert fleiri í öllum aldursflokkum háskólamenntaðra fram til 65 ára aldurs.

Fjöldi kvenna með meistaragráðu tvöfaldast frá síðasta manntali
Fleiri karlar en konur voru með meistaragráðu og doktorsgráðu í manntalinu 2011 en konur með bakkalárgráðu voru talsvert fleiri en karlar. Árið 2021 voru hins vegar fleiri konur en karlar með meistaragráðu og hafði fjöldi þeirra nær tvöfaldast frá síðasta manntali. Karlar höfðu enn forskot á meðal þeirra sem lokið höfðu doktorsgráðu í manntalinu 2021 en konum með doktorsgráðu hafði fjölgað um 94% á milli manntala.

Hæst hlutfall háskólamenntaðra á meðal innflytjenda frá Bandaríkjunum
Hæsta stig menntunar var nokkuð mismunandi eftir fæðingarlandi innflytjenda 25 ára og eldri í manntalinu 2021. Af tíu fjölmennustu fæðingarlöndunum innflytjenda var hlutfall háskólamenntaðra hæst hjá þeim sem komu frá Bandaríkjunum eða rúm 67% en næstir voru innflytjendur frá Þýskalandi. Lægst hlutfall háskólamenntaðra var á meðal innflytjenda frá Taílandi og Portúgal. Hæst hlutfall íbúa með framhaldsskólamenntun sem hæsta stig menntunar var frá Póllandi og Rúmeníu en lægst frá Taílandi og Bandaríkjunum.

Niðurstöður manntalsins 2021 eru birtar í áföngum frá nóvember 2022 til vorsins 2023 og er gert ráð fyrir mánaðarlegum birtingum eftir efni. Fjallað verður um vinnumarkaðinn í næstu útgáfu sem fyrirhuguð er í febrúar 2023.

Talnaefni

Greinargerð - Manntal og húsnæðistal 1. janúar 2021 (birt 14. nóvember 2022)

ÍSMENNT2011 – Flokkun menntunarstöðu

Eldri fréttir úr manntalinu 2021
Mannfjöldi á Íslandi 359.122 samkvæmt manntali 2021
Fjöldi innflytjenda hefur tvöfaldast frá manntalinu 2011

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281100 , netfang manntal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.