FRÉTT MENNTUN 20. APRÍL 2012


Nemendum ofan grunnskóla fjölgar um 2,7%
Nemendur á skólastigum ofan grunnskóla á Íslandi voru 46.217 haustið 2011 og hafði fjölgað um 1.214 nemendur frá fyrra ári, eða 2,7%. Alls sóttu 20.744 karlar nám og 25.473 konur. Á framhaldsskólastigi stunduðu 26.153 nemendur nám og fjölgar um 3,9% frá fyrra ári. Á viðbótarstigi voru 965 nemendur. Á háskólastigi í heild voru 19.099 nemendur og fjölgaði um 1,3% frá haustinu 2010.

Fleiri 18 og 19 ára ungmenni sækja skóla en fyrri ár
Tæplega 83% 18 ára ungmenna stunda nám og rúmlega 75% 19 ára, og hafa ekki áður verið fleiri í námi í þessum aldurshópum. Tæplega 90% 17 ára nemenda sækja skóla, sem er fjölgun frá fyrra ári. Ekki hafa áður verið fleiri 17 ára unglingar í skóla á Íslandi að undanskildu haustinu 2009. Skólasókn 16 ára ungmenna á Íslandi haustið 2011 er um 95%, sem er sama hlutfall og haustin 2009 og 2010.

Jafnframt fjölgar nemendum á framhaldsskólastigi frá fyrra ári í öllum 5 ára aldursflokkum frá 15 til 54 ára. Þeim hafði fækkað á milli áranna 2009 og 2010 vegna fækkunar nemenda í fjarnámi og í öldungadeildum.

Hlutfallslega flestir 16 ára unglingar sækja skóla á Vesturlandi eða 97%, en fæstir á Norðurlandi vestra, 90%.

 

Einn af hverjum þremur nemendum á framhaldsskólastigi leggur stund á starfsnám og hafa ekki verið færri síðasta áratuginn
Um tveir af hverjum þremur nemendum á framhaldsskólastigi stunda nám á bóknámsbrautum en 33,4% eru í starfsnámi. Hlutfall nemenda í starfsnámi hefur lækkað lítillega frá síðasta ári, þegar það var 34,2% og hafa ekki verið færri nemendur í starfsnámi síðasta áratuginn.

Hlutfall nemenda í starfsnámi er mun hærra meðal karla en kvenna, eða 38,5% á móti 28,2% hjá konum.

Nemendum á meistarastigi og doktorsstigi fækkar á milli ára
Nemendum á meistarastigi í háskólanámi hefur fjölgað ár frá ári þar til haustið 2011, þegar þeim fækkaði um 59 (-1,4%), úr 4.243 haustið 2010 í 4.176. Fækkunin á sér aðeins stað hjá körlum, sem fækkar um 5,8%, á meðan konum í meistaranámi fjölgar um 0,8%.

Sömu sögu er að segja af doktorsstigi. Þar hefur nemendum fjölgað árlega frá árinu 2001 en fækkar nú um 26 (-5,4%), úr 478 í 452. Körlum í doktorsnámi fækkar um 15,0% en konum fjölgar um 1,4% frá fyrra ári. Tæplega fjórðungur (23,9%) doktorsnema eru útlendingar, flestir frá öðrum Evrópulöndum.

 

 

Um gögnin
Upplýsingum er safnað beint frá skólunum og miðast við fjölda nemenda um miðjan október. Hver nemandi er aðeins talinn einu sinni þótt hann stundi nám í tveimur skólum. Skólasókn er reiknuð þannig að nemendur eru flokkaðir eftir aldri og lögheimili þann 1. desember ár hvert og hlutfall þeirra síðan reiknað af fjölda í hverjum flokki.

Talnaefni:
     Yfirlit
     Framhaldsskólar
     Háskólar

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.