FRÉTT MENNTUN 30. MAÍ 2008

Hagstofa Íslands hefur tekið saman tölur um fjölda nemenda á öllum skólastigum og tölur um skólasókn í framhaldsskólum og háskólum eins og hún var á miðju haustmisseri 2007. Auk þess hafa gögn um nemendur í framhalds- og háskólum verið endurflokkuð í samræmi við hið alþjóðlega flokkunarkerfi menntunar ISCED97 og nokkrum veftöflum verið breytt til samræmis. Þessar breytingar ná aftur til ársins 2002. Gögn sem ekki verða lengur uppfærð má áfram finna undir „eldra efni“ á vef Hagstofu Íslands.

Nemendur á öllum skólastigum rúmlega 104 þúsund
Á skólaárinu 2007-2008 er heildarfjöldi nemenda á landinu öllu 104.064. Á yfirstandandi skólaári eru skráðir 17.446 nemendur á leikskólastigi, 43.802 nemendur á grunnskólastigi, 25.090 nemendur á framhaldsskólastigi og 17.726 á skólastigum ofar framhaldsskólastigi. Nemendum á Íslandi hefur fjölgað um 1.776 frá árinu áður, eða um 1,7%.

Frá 1997 hefur nemendum á öllum skólastigum fjölgað um 17.904 eða 20,8%. Á þessu árabili hefur gríðarlegur vöxtur verið á skólastigum ofan framhaldsskólastigs. Fjöldi nemenda á þessum skólastigum, sem eru viðbótarstig, háskólastig og doktorsstig, hefur ríflega tvöfaldast en það er fjölgun sem nemur 111,7%. Á sama tíma hefur nemendum á framhaldsskólastigi fjölgað um 21,7% og á leikskólastigi um 17,4%. Á grunnskólastigi fjölgaði nemendum um 3,5% á þessu tímabili.

Hlutur kvenna í fjölgun nemenda undanfarin 10 ár er áberandi, einkum ofan framhaldsskólastigsins. Þar fjölgaði konum um 6.109 (124,4% ) en körlum um 3.245 (93,7%). Konur eru 52,3% nemenda á framhaldsskólastigi og 62,2% nemenda ofan framhaldsskólastigsins.

Skólasókn 16 ára er 93% og er óbreytt tvö ár í röð
Skólasókn 16 ára ungmenna á Íslandi haustið 2007 var 93% sé miðað við öll kennsluform (dagskóla, kvöldskóla og fjarnám). Skólasókn 16 ára ungmenna á landsvísu hefur ekki breyst frá fyrra ári. Haustið 2005 voru flest 16 ára ungmenni í skóla en þá náði skólasókn þeirra 94%.
Stúlkur sækja skóla í meira mæli en piltar. Skólasókn stúlkna er 94% á móti 92% pilta. Enn fremur er nokkur munur á skólasókn 16 ára ungmenna eftir landshlutum. Hlutfallslega flestir 16 ára unglingar sækja skóla á Vesturlandi en þar er skólasókn 96%. Á Vesturlandi og Vestfjörðum er enginn munur á skólasókn 16 ára pilta og stúlkna en hins vegar er talsverður munur á skólasókn kynja á Suðurnesjum og á Austurlandi. Skólasókn 16 ára stúlkna mælist hæst á Austurlandi en þar er hún 97% en til samanburðar kjósa einungis 92% pilta á Austurlandi að sækja skóla. Lægst skólasókn á landinu er meðal pilta á Suðurnesjum en þar er hún 86% en skólasókn stúlkna 91%.

Skólasókn ofan framhaldsskólastigs – konur áberandi fleiri en karlar
Að loknu framhaldsskólastigi eru fjölmennustu aldursárgangar í skólum 22 og 23 ára. Hlutfall kvenna í þessum árgöngum er áberandi hærra en hlutfall karla (mynd 2). Af 23 ára árgangi nemenda á viðbótar-, háskóla- og doktorsstigi er hlutfall kvenna 38% en hlutfall karla 23% og munurinn því 15 prósentustig konum í vil.

Ný framsetning á gögnum – alþjóðleg menntunarflokkun (ISCED97)
Hagstofan birtir nú á vef sínum í fyrsta skipti tölur um fjölda nemenda sem flokkaðir eru samkvæmt hinu alþjóðlega flokkunarkerfi menntunar ISCED97. Nú er hægt að skoða fjölda nemenda á Íslandi eftir þessu kerfi en í því eru skil skólastiga með öðrum hætti en verið hefur. Nú er ekki lengur fjallað um framhaldsskólastig og háskólastig sem tvo aðskilda flokka heldur flokkast nám í framhaldsskólastig, viðbótarstig, háskólastig og doktorsstig samkvæmt ISCED97. Ennfremur er hægt að skoða tegundir náms og námsleiðir innan framangreindra stiga, t.d. almennt nám og starfsnám. Einnig má sjá nám á háskóla- og doktorsstigi sundurgreint eftir prófgráðum. Þannig má lesa út úr hinum nýju gögnum að heildarfjöldi nemenda á framhalds- og viðbótarstigi haustið 2007 er 26.186. Þar af leggja 16.539 nemendur stund á almennt nám, en það eru 63% nemenda á þessum tveimur skólastigum. Til samanburðar leggja 9.647 nemendur stund á nám sem telja má til starfsnáms, eða 37%. Athyglisvert er að skoða þennan mun í ljósi kynferðis. Hlutfall karla í starfsnámi er 44% en einungis 30% kvenna stunda starfsnám (mynd 3).

Um gögnin
Upplýsingum er safnað beint frá skólunum og miðast við fjölda nemenda um miðjan október. Hver nemandi er aðeins talinn einu sinni þótt hann stundi nám í tveimur skólum. Skólasókn er reiknuð þannig að nemendur eru flokkaðir eftir aldri og lögheimili þann 1. desember ár hvert og hlutfall þeirra síðan reiknað af fjölda í hverjum flokki.

Talnaefni:
     Yfirlit
     Framhaldsskólar
     Háskólar

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.