FRÉTT MENNTUN 19. FEBRÚAR 2009

Hagstofa Íslands hefur tekið saman tölur um skráða nemendur í framhaldsskólum og háskólum haustið 2008 og gefið út hefti í ritröðinni Hagtíðindi.

Alls eru 47.282 nemendur skráðir í framhaldsskóla og háskóla
Haustið 2008 eru skráðir nemendur á framhalds- og háskólastigi fleiri en nokkru sinni fyrr eða 47.282. Í framhaldsskóla eru skráðir 29.271 og 18.011 nemendur í háskóla. Á milli áranna 2007 og 2008 fjölgaði skráðum nemendum um 2,6%. Fjölgunin er öllu meiri á framhaldsskólastigi, eða um 3,3%, á móti 1,6% á háskólastigi. Fjölgun nemenda skýrist fyrst og fremst af miklum vexti fjarnáms á báðum skólastigum og grunnskólanemendum sem sækja í auknum mæli í nám á framhaldsskólastigi. Nemendur grunnskóla eru 5,0% skráðra nemenda í framhaldsskólum og hefur fjölgað um 9,3% á milli ára í framhaldsskólum landsins.

Konur eru í meirihluta meðal skráðra nemenda
Konur eru umtalsvert fleiri en karlar meðal skráðra nemenda eða 6.888 fleiri. Alls stunda 27.085 konur nám á móti 20.197 körlum. Konur eru 57,3% nemenda á öllum skólastigum ofan grunnskóla en hlutur karla er 42,7%.

Þegar skipting kynja er skoðuð eftir skólastigum, eru konur 54,0% nemenda á framhaldsskólastigi, 37,0% nemenda á viðbótarstigi, 64,3% nemenda á háskólastigi og 58,3% nemenda á doktorsstigi.

Flestir nemendur velja bóknám á framhaldsskólastigi og fræðilegt nám á háskólastigi
Í bóklegt nám á framhaldsskólastigi eru skráðir 19.741 nemendur en í starfsnám eru skráðir 9.163 nemendur. Því eru 68,3% nemenda á framhaldsskólastigi skráðir í einhvers konar bóknám en 31,7% nemenda skráðir í einhvers konar starfsnám.

Á háskólastigi eru 97,5% nemenda skráðir í fræðilegt háskólanám en einungis 2,5% í starfsmiðað háskólanám. Konur eru 64,7% nemenda í fræðilegu háskólanámi en 50,1% nemenda sem skráðir eru í starfsmiðað háskólanám.

Langfjölmennasta einstaka námsbrautin er almenn námsbraut á framhaldsskólastigi. Á þessa námsbraut eru skráðir 6.870 nemendur. Næst fjölmennasta námsbrautin er náttúrufræðibraut en þar eru skráðir til náms 4.879 nemendur. Fast á hæla náttúrufræðibrautar kemur félagsfræðabraut með 4.545 skráða nemendur.

Í háskólum eru flestir nemendur skráðir á svið viðskiptafræða en þar eru þeir 2.896. Næst fjölmennasta námssviðið í háskólum er lögfræði en þar eru skráðir til náms 1.290 nemendur.

Í ofangreindum Hagtíðindum má finna yfirlitstölur um heildarfjölda skráðra nemenda í framhalds- og háskólum frá árinu 2002 til 2008. Einnig sundurliðaðar tölur eftir skólastigi, kennsluformi og tegundum skóla fyrir sama tímabil. Loks má finna upplýsingar um fjölda nemenda eftir námsstöðu þeirra. Ítarlegar upplýsingar um fjölda skráðra nemenda haustið 2008 eftir einstaka skólum, námsbraut, kyni og kennsluformi má fá með því að smella hér.

Skráðir nemendur í framhalds- og háskólum haustið 2008 - Hagtíðindi

Talnaefni:
  Framhaldsskólar
  Háskólar
  Yfirlit

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.