Landsframleiðsla jókst að raungildi um 3,3% á árinu 2013. Hagvöxtur hefur ekki verið meiri frá árinu 2007 og hefur landsframleiðsla ekki verið hærri að raungildi frá árinu 2008. Utanríkisverslun dregur hagvöxtinn áfram því þjóðarútgjöld á árinu 2013 jukust lítillega eða um 0,1%.

Einkaneysla jókst um 1,2% og samneysla um 1,3% en fjárfesting dróst saman um 3,4%. Útflutningur jókst um 5,3% á sama tíma og innflutningur dróst saman um 0,1% þannig að verulegur afgangur varð af vöru- og þjónustuviðskiptum á liðnu ári, eða 132 milljarðar króna.

Samdrátt í  fjárfestingu á síðasta ári má að miklu leyti rekja til minni innflutnings skipa og flugvéla sem kemur með beinum hætti fram í fjárfestingu ársins en jafnframt til frádráttar sem innflutningur og hefur því lítil sem engin áhrif á landsframleiðslu ársins. Að frádreginni fjárfestingu í skipum og flugvélum jókst atvinnuvegafjárfesting á síðasta ári um 2,8% og fjárfesting alls um 5,8%. 

Halli á launa- og fjáreignatekjum frá útlöndum minnkaði verulega á síðasta ári samkvæmt bráðabirgðatölum sem Seðlabankinn hefur nú birt. Það ásamt afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum leiddi til jákvæðs viðskiptajafnaðar í fyrsta sinn frá árinu 2002. Hann nam tæpum 82 milljörðum króna án rekstrarframlaga, 4,6% af landsframleiðslu á árinu 2013 og hefur afgangurinn sem hlutfall af landsframleiðslu aldrei verið meiri. Árið 2012 var hann neikvæður um rúma 80 milljarða eða 4,7% af landsframleiðslu.

Landsframleiðslan 2013  - Hagtíðindi

Talnaefni