Ráðstöfunartekjur heimilageirans jukust árið 2013 um 4,2% frá fyrra ári. Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 3,2% milli ára en kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann dróst saman um 0,7%.

Ráðstöfunartekjur heimilanna má skilgreina sem samtölu launatekna, eignatekna, tilfærslutekna og reiknaðs rekstrarafgangs einstaklingsfyrirtækja en að frádregnum eigna- og tilfærsluútgjöldum.

Heildartekjur heimilageirans jukust um 5,9% frá árinu 2012 til 2013. Þar af var 7,5% aukning á heildarlaunatekjum, 5,4% aukning á heildareignatekjum og 3,6% aukning á rekstrarafgangi einstaklingsfyrirtækja. Heildartilfærslutekjur jukust um 0,8% milli ára. Heildareigna- og tilfærsluútgjöld jukust um 8,4% milli ára, vegna 9,5% meiri eignaútgjalda og 8,2% aukningar tilfærsluútgjalda.

 


Samhliða birtingu talna fyrir árið 2013 hefur hluti af niðurstöðum fyrri ára verið endurskoðaður í samræmi við þær endurbætur sem gerðar hafa verið á þjóðhagsreikningum og voru kynntar á vef Hagstofunnar 19. september síðastliðinn. Helstu breytingarnar eru að tölur um rekstrarafgang af rekstri íbúðarhúsnæðis hafa verið lagfærðar í samræmi við endurskoðun á þeim tölum í einkaneyslunni og framleiðsluuppgjörinu. Einnig hefur nú verið tekið tillit til tekna heimilageirans af ólöglegri starfsemi líkt og í útgjöldum til einkaneyslu. Auk þess er notast við endurskoðaðar tölur yfir nettólaun frá útlöndum aftur til 1997, bætur tjónatrygginga aftur til 2003 og dagpeninga yfir allt tímabilið.

Þær tölur sem hér eru birtar eru að mestu byggðar á skattframtölum einstaklinga, en leitast er við að laga þær sem best að uppgjöri þjóðhagsreikninga þar sem við á. Má þar nefna að hagnaður af reiknaðri eigin leigu íbúðarhúsnæðis er hér tekjufærður þótt hann komi ekki fram í framtali. Söluhagnaði, t.d. vegna sölu hlutabréfa,er einnig sleppt í uppgjörinu.

Nánari lýsingu á einstökum þáttum ráðstöfunartekna heimilanna er að finna í Hagtíðindum frá 16. apríl 2007 sem finna má hér 

Talnaefni