Ráðstöfunartekjur heimilageirans jukust árið 2015 um 10,8% frá fyrra ári. Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 9,6% milli ára og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann jókst um 7,9%.
Ráðstöfunartekjur heimilanna má skilgreina sem samtölu launatekna, eignatekna, tilfærslutekna og reiknaðs rekstrarafgangs einstaklingsfyrirtækja en að frádregnum eigna- og tilfærsluútgjöldum.
Heildartekjur heimilageirans jukust um 9,5% frá árinu 2014 til 2015. Þar af var 10,7% aukning á heildarlaunatekjum, 12,9% aukning á heildareignatekjum og 11,4% aukning á rekstrarafgangi einstaklingsfyrirtækja. Heildartilfærslutekjur jukust um 2,7% milli ára. Heildareigna- og tilfærsluútgjöld jukust um 7,5% milli ára vegna 9,1% meiri tilfærsluútgjalda, en eignaútgjöld drógust saman um 2%.
Samhliða birtingu talna fyrir árið 2015 hafa niðurstöður fyrri ára verið að hluta til endurskoðaðar. Megin endurskoðunin kemur fram í útreikningum á iðgjaldagreiðslum heimila til lífeyrissjóða yfir tímabilið 2001-2014. Í áður birtum tölum höfðu iðgjöld til séreigna-lífeyrissjóða verið að hluta til tvítalin og hefur sú villa nú verið leiðrétt. Einnig hafa tölur um rekstarafgang af rekstri íbúðahúsnæðis verið endurskoðaðar yfir tímabilið 1999-2014, með hliðsjón af áður birtum tölum yfir reiknaða húsaleigu í einkaneyslunni. Auk ofangreindra breytinga er notast við endurskoðaðar tölur um nettólaun frá útlöndum yfir tímabilið 2012-2014 og óbeint mælda fjármálaþjónustu (FISIM) yfir sama tímabil.
Þær tölur sem hér eru birtar eru að mestu byggðar á skattframtölum einstaklinga, en leitast er við að laga þær sem best að uppgjöri þjóðhagsreikninga þar sem við á. Má þar nefna að hagnaður af reiknaðri eigin leigu íbúðarhúsnæðis er hér tekjufærður þótt hann komi ekki fram í framtali. Söluhagnaði (þ.e. hagnaði af sölu hlutabréfa og almennum söluhagnaði) er einnig sleppt í uppgjörinu, með hliðsjón af tekjuhugtakinu í þjóðhagsreikningum. Tekjuhugtakið nær hér til þeirra tekna sem unnt er að ráðstafa án þess að gengið sé á efnahaginn. Er þá átt við efnahag í byrjun viðkomandi tímabils áður en hann tekur breytingum vegna fjármagnstilfærslna eða söluhagnaðar eða -taps (e.capital gain/losses).
Nánari lýsingu á einstökum þáttum ráðstöfunartekna heimilanna er að finna í Hagtíðindum frá 16. apríl 2007 sem finna má hér.