FRÉTT ÞJÓÐHAGSSPÁ 01. JÚNÍ 2018

Hagstofa Íslands hefur í dag gefið út þjóðhagsspá að sumri í ritröð sinni, Hagtíðindum. Spáin nær yfir árin 2018 til 2023.

Horfur eru á hægari hagvexti í ár en á síðasta ári. Gert er ráð fyrir að hann verði 2,9% og að einkaneysla aukist um 5,3%. Talið er að samneysla aukist um 2,5% á árinu og fjárfesting um 3,2%. Á næsta ári er útlit fyrir að landsframleiðsla aukist um 2,7%, einkaneysla um 3,9%, samneysla um 2,1% og er gert ráð fyrir að fjárfesting aukist um 4,9%. Á árunum 2020–2023 er reiknað með að hagvöxtur verði á bilinu 2,5–2,7% og að aukning einkaneyslu verði á bilinu 2,5–3,1%, vöxtur samneyslu verði rúmlega 1,8% og aukning fjárfestingar að meðaltali um 2,8% á tímabilinu.

Reiknað er með að verðbólga aukist þar sem áhrif gengisstyrkingar fjara út og hrávöruverð hefur hækkað. Gert er ráð fyrir raunhækkun íbúðaverðs þó að hún verði minni en hefur verið undanfarin misseri. Talsverð óvissa er um launaþróun á næsta ári en þá verða kjarasamningar stærstu launþegahópa lausir. Reiknað er með að atvinna aukist hægar í samræmi við minni umsvif.

Talið er að einkaneysla verði kröftug næstu tvö ár en búist er við minni vexti þegar hægir á umsvifum í hagkerfinu. Útlit er fyrir talsverðan vöxt íbúðafjárfestingar og opinberrar fjárfestingar á næstunni en á móti vegur samdráttur í stóriðjutengdum fjárfestingum. Næstu ár er gert er ráð fyrir að framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar verði áfram neikvætt líkt og undanfarin ár og að viðskiptajöfnuður dragist saman á spátímanum.

Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 23. febrúar og er næsta útgáfa ráðgerð í nóvember.

Þjóðhagsspá að sumri 2018 — Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1073 , netfang Marino.Melsted@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.