FRÉTT VERÐLAG 27. FEBRÚAR 2007

Vísitala framleiðsluverðs í janúar 2007 er 125,8 stig (4. fjórðungur 2005 = 100) og hækkar um 0,9% frá fyrri mánuði. Vísitala framleiðsluverðs fyrir sjávarafurðir er 130,8 stig og hækkar um 0,4% (vísitöluáhrif 0,1%) og vísitala framleiðsluverðs fyrir stóriðju er 157,7 stig, hækkar um 4,1% (0,7%). Fyrir matvæli er vísitalan 108,0 stig og hækkar um 0,7% (0,1%) en vísitala fyrir annan iðnað er 113,1 stig, lækkar um 0,4% (-0,1%) frá desember.

Vísitala framleiðsluverðs fyrir vörur sem framleiddar voru og seldar innanlands er 109,0 stig og hækkar um 0,2% milli mánaða (0,1%) en fyrir útfluttar afurðir 136,1 stig sem er hækkun um 1,3% (0,8%).

Vísitala framleiðsluverðs fyrir útfluttar afurðir, að sjávarafurðum undanskildum, er 145,4 stig og hækkar um 2,7% (0,7%) en vísitala fyrir útfluttar afurðir án sjávarafurða og stóriðju er 121,6 stig og lækkar um 0,7% (-0,1%).

Frá janúar 2006 hefur vísitala framleiðsluverðs hækkað um 22,4%, þar af 28,6% fyrir sjávarafurðir, 42,0% fyrir stóriðju  og 7,1% fyrir matvælaframleiðslu.

Nú er í fyrsta sinn birt mánaðarleg vísitala framleiðsluverðs og er hún reiknuð aftur til 4. ársfjórðungs 2005. Nýjar undirvísitölur eru nú birtar fyrir matvælaframleiðslu, stóriðju, útfluttar afurðir án sjávarafurða og loks fyrir útfluttar afurðir án sjávarafurða og stóriðju.

Vogir eru uppfærðar og birtar mánaðarlega með hliðsjón af magnbreytingum í framleiðslu. Gerð verður ítarleg grein fyrir aðferðafræði við útreikning vísitölu framleiðsluverðs í Hagtíðindahefti sem kemur út þann 22. mars næstkomandi.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.