Mikill samdráttur varð á launasummu og fjölda starfandi hjá fyrirtækjum og stofnunum í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar1 í júlí 2020 samkvæmt mánaðarlegri tilraunatölfræði um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur og talnaefni um fjölda starfandi samkvæmt skrám.

Árið 2020 voru töluverðar breytingar á heildarlaunagreiðslum í ferðaþjónustu en þrátt fyrir 10% hækkun á milli júní og júlí voru heildarlaunagreiðslur um 31% lægri í júlí 2020 en í júlí 2019. Að sama skapi jókst fjöldi starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar um tæp 4 prósent á milli júní og júlí 2020 en hafði fækkað um tæp 33% á milli ára. Við nánari skoðun á einkennandi greinum ferðaþjónustu sést að fjöldi starfandi við ferðaskrifstofur, ferðaskipuleggjendur og aðra bókunarþjónustu dróst saman um 43% og 44% starfandi við rekstur gististaða.

Heildarlaunasumma staðgreiðsluskyldra launa á vinnumarkaðnum í heild sinni lækkaði lítillega á milli júní og júlí 2020 eða um 0,8% en breytingin á milli júlí 2019 og 2020 er meiri eða 3,1% lækkun. Fjöldi starfandi jókst um 1% á milli mánaða en ef horft er til júlí 2019 fækkaði starfandi um tæplega 4%. Gera má ráð fyrir því að flestir sem misstu störf sín í mars eða apríl á þessu ári hafi fengið síðustu útborgun vegna uppsagnarfrests í júlí og ágúst. Því má ætla að breytingar á vinnumarkaði séu enn ekki komnar fram að fullu í gögnunum.

Um gögnin
Laun og fjöldi starfandi byggja í grunninn á staðgreiðsluskrá Skattsins en öllum þeim, sem teljast greiðendur samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinbera gjalda, ber að skila mánaðarlega skilagrein með sundurliðuðum upplýsingum um hvern þann sem fær staðgreiðsluskylda launagreiðslu. Einyrkjar með rekstur á eigin kennitölu, sem greiða sjálfum sér laun í formi reiknaðs endurgjalds, eru ekki hluti staðgreiðsluskyldra greiðslna en hluti af fjölda starfandi. Um er að ræða bráðabirgðatölur sem geta tekið breytingum yfir tíma og er vakin athygli á því að tölur geta breyst vegna síðbúinna skila launagreiðanda. Hver einstaklingur er talinn einu sinni fyrir hverja atvinnuþátttöku í ISAT 2008-atvinnugrein í mánuði. Einstaklingur getur því verið talinn oftar en einu sinni í hverjum mánuði en ekki oftar en samtala atvinnugreina sem einstaklingurinn tók þátt í á mánaðarbili.

1 Einkennandi greinar ferðaþjónustunnar eru samsettar úr nokkrum atvinnugreinum í ÍSAT2008 kerfinu: Tveggja stafa deildinni 79, þriggja stafa greinunum 491, 501, 503, 511, 551, 552, 553, 561, 563, 771 og fjögurra stafa greinunum 4932, 4939, 7721.

Tilraunatölfræði um staðgreiðsluskyldar greiðslur

Lýsigögn um fjölda starfandi samkvæmt skrám

Talnaefni