FRÉTT VINNUMARKAÐUR 09. ÁGÚST 2018

Á öðrum ársfjórðungi 2018 voru að jafnaði 205.400 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði. Af þeim voru 198.100 starfandi og 7.300 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka var 83,0%, hlutfall starfandi 80,0% en atvinnuleysi 3,6%. Samanborið við annan ársfjórðung 2017 fjölgaði starfandi fólki um 2.900 en hlutfall starfandi af mannfjölda lækkaði hins vegar um 1,5 prósentustig. Fjöldi atvinnulausra fjölgaði lítillega eða um 300 manns og hlutfall þeirra af vinnuafli jókst um 0,2 prósentustig. Atvinnulausar konur voru 3.000 og var atvinnuleysi á meðal kvenna 3,2%. Atvinnulausir karlar voru 4.200 eða 3,9%. Atvinnuleysi var 3,9% á höfuðborgarsvæðinu og 3,0% utan þess.

Vinnutími
Á öðrum ársfjórðungi 2018 voru að jafnaði 180.100 manns við vinnu í hverri viku ársfjórðungsins eða 90,9% starfandi fólks og 72,8% af heildarmannfjölda 16–74 ára. Meðalfjöldi heildarvinnustunda á viku voru 40,4 klukkustundir hjá þeim sem voru við vinnu í viðmiðunarvikunni, 44,5 klukkustundir hjá þeim sem voru í fullu starfi og 24,8 klukkustundir hjá þeim sem voru í hlutastarfi.

Vinnumarkaður á 2. ársfjórðungi 2018 - Hagtíðindi

Talnaefni

 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1284 , netfang kannanir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.