Fyrsti ársfjórðungur á íslenskum vinnumarkaði var um margt óvenjulegur. Segja má að það sem hafi einkennt hann öðru fremur hafi verið takmarkanir á vinnu fólks, bæði vegna verkfallsaðgerða og síðan samkomubanns um miðjan marsmánuð. Þessara áhrifa gætir að einhverju leyti í mælingum á vinnuaflinu. Sjá einnig: Vinnumarkaður í mars.
Atvinnuleysi 3,6%
Atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 16 til 74 ára var 79,1% af mannfjölda á fyrsta ársfjórðungi 2020, eða að jafnaði um 206.900 manns. Þar af töldust að meðaltali 7.500 manns vera atvinnulausir, eða um 3,6%. Á sama tíma voru um 2.900 störf laus á íslenskum vinnumarkaði samkvæmt starfaskráningu Hagstofunnar eða um 1,3% starfa, samanber áður útgefnar tölur. Til samanburðar voru um 6.200 manns atvinnulausir á fyrsta ársfjórðungi 2019 og jókst atvinnuleysi um 0,6 prósentustig á milli ára.
Langtímaatvinnuleysi eykst
Af þeim sem voru atvinnulausir á fyrsta ársfjórðungi 2020 höfðu að jafnaði um 3.400 manns verið atvinnulausir í 2 mánuði eða skemur eða 45,6% atvinnulausra. Til samanburðar höfðu um 4.700 verið atvinnulausir í tvo mánuði eða skemur á sama tíma 2019, eða 76,3%.
Um 1.800 manns höfðu verið langtímaatvinnulausir á fyrsta ársfjórðungi 2020 eða 23,6% atvinnulausra, en langtímaatvinnulausir teljast þeir sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur. Sambærilegur fjöldi langtímaatvinnulausra hefur ekki mælst síðan fyrri hluta ársins 2014. Til samanburðar voru um 300 manns langtímaatvinnulausir á fyrsta ársfjórðungi 2019 eða 5,5% atvinnulausra.
Hlutfall starfandi lækkar
Fjöldi starfandi fólks var um 199.400 á fyrsta ársfjórðungi 2020 eða 76,3% af mannfjölda. Er það rétt færri en á fyrsta ársfjórðungi árinu fyrr eða fækkun um 200 manns. Hlutfall starfandi lækkaði því um 2,1 prósentustig á milli ára. Fjöldi starfandi í fullu starfi minnkaði um 800 manns frá fyrra ári, en af starfandi fólki voru 74,6% í fullu starfi sem er lækkun um 0,3 prósentustig frá fyrsta ársfjórðungi 2019.
Fjölgun utan vinnumarkaðar
Á fyrsta ársfjórðungi 2020 voru 54.600 manns, eða 20,9%, utan vinnumarkaðar og er það aukning um 5.700 manns, eða 1,7 prósentustig, frá árinu áður. Á sama tímabili jókst áætlaður mannfjöldi á aldrinum, 16 til 74 ára, úr um 254.600 í um 261.500 manns, eða um 2,8%.
Aukning launafólks í fjarvinnu
Á fyrsta ársfjórðungi 2020 vann að jafnaði 39,0% launafólks á aldrinum 25 til 64 ára aðalstarf sitt venjulega eða stundum í fjarvinnu heima. Þar af var launafólk sem vann aðalstarf sitt venjulega í fjarvinnu heima 5,1% en 33,3% launafólks vann stundum í fjarvinnu. Þetta er nokkur aukning frá fyrra ári þegar 31,7% launafólks á aldrinum 25 til 64 ára sinnti í fjarvinnu heima. 4,3% gerðu venjulega og 27,4% gerðu það stundum. Fjarvinna heima tekur aðeins til vinnu sem tengist aðalstarfi einstaklinga en ekki til heimilisstarfa eða annarra starfa heima við. Trúlegt er að áhrifa Covid-19 gæti nokkuð í þessari aukningu.
Fleiri stundir hjá þeim sem vinna heima í fjarvinnu
Þegar vinnustundir á fyrsta ársfjórðungi eru skoðaðar sést að launafólk á aldrinum 25 til 64 ára vann 39,5 klukkustundir að jafnaði í hverri viku. Þeir sem voru eitthvað í fjarvinnu heima unnu 41,4 klukkustundir og þeir sem aldrei eru í fjarvinnu heima unnu 38,1 klukkustund. Til samanburðar vann launafólk á aldrinum 25 til 64 ára að jafnaði 40,9 klukkustundir á fyrsta ársfjórðungi 2019 en þeir sem unnu í fjarvinnu heima 42,9 klukkustundir og þeir sem sögðust aldrei vinna fjarvinnu heima 39,7 klukkustundir.
Á fyrsta ársfjórðungi 2020 unnu launamenn, sem eitthvað vinna fjarvinnu heima, að jafnaði 9,8 klukkustundir eða 23,8% af unnum stundum. Á fyrsta ársfjórðungi 2019 vann launafólk, sem eitthvað vinnur í fjarvinnu heima, 6,7 stundir að jafnaði eða 15,9% af unnum stundum.