Hlutfall mannfjölda 16 til 74 ára á vinnumarkaði, eða atvinnuþátttaka, mældist 80,2% á öðrum ársfjórðungi sem er aukning um 2,3 prósentustig frá sama ársfjórðungi 2020. Fjöldi starfandi á öðrum ársfjórðungi 2021 var 194.500 manns og var hlutfall starfandi af mannfjölda 73,9%. Hlutfall starfandi kvenna var 69,5% og starfandi karla 78,0%. Á höfuðborgarsvæðinu var hlutfall starfandi fólks 74,8% og utan höfuðborgarsvæðis 72,3%.
Frá öðrum ársfjórðungi 2020 til annars ársfjórðungs 2021 fjölgaði starfandi fólki um 7.200 manns og jókst hlutfall þess af mannfjölda um 2,2 prósentustig. Starfandi konum fjölgaði um 4.000 og körlum um 3.200.
Til samanburðar voru 187.300 starfandi á öðrum ársfjórðungi 2020 og hlutfall af mannfjölda 71,7%. Hlutfall starfandi kvenna var þá 67,2% og starfandi karla 75,9%. Þá var hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu 72,5% og 70,3% utan höfuðborgarsvæðisins.
Þessar niðurstöður má túlka sem vísbendingu um að íslenskur vinnumarkaður sé að rétta úr kútnum eftir niðursveifluna vegna Covid-19.
Vinnustundir á viku
Á öðrum ársfjórðungi 2021 var meðalfjöldi heildarvinnustunda á viku 36,5 klukkustundir hjá þeim sem voru við vinnu í viðmiðunarvikunni, 31,9 stundir hjá konum og 40,2 stundir hjá körlum. Til samanburðar var meðalfjöldi vinnustunda 36,9 klukkustundir á öðrum ársfjórðungi 2020, 33,5 stundir hjá konum og 39,4 stundir hjá körlum. Heildarvinnustundir á viku eru nú litlu færri en þær voru á sama ársfjórðungi 2020. Þó fækkaði vinnustundum kvenna um rúmlega eina og hálfa klukkustund á viku en vinnustundum karla fjölgaði um tæplega eina klukkustund.
Starfandi fólk vann að jafnaði 38,5 klukkustundir í venjulegri vinnuviku, óháð því hvort var við vinnu í viðmiðunarvikunni eða ekki, samanborið við 38,9 stundir á öðrum ársfjórðungi 2020.
Atvinnuleysi 7,9%
Á öðrum ársfjórðungi 2021 töldust að meðaltali 16.700 einstaklingar vera atvinnulausir eða um 7,9% af heildarvinnuafli 16-74 ára. Atvinnuleysi kvenna var 8,3% og karla 7,6%. Á sama ársfjórðungi voru um 7.600 störf laus á íslenskum vinnumarkaði samkvæmt starfaskráningu Hagstofunnar eða um 4,0% starfa samanber áður útgefnar tölur. Til samanburðar voru um 16.100 einstaklingar atvinnulausir á öðrum ársfjórðungi 2020 og var hlutfall þeirra af vinnuafli þá 7.9%.
Sé horft til aldurshópsins 16 til 24 ára var atvinnuleysi 20,0% sem er talsverð hækkun frá sama ársfjórðungi árið 2020 eða um 4,2 prósentustig. Á tímabilinu minnkaði þó atvinnuleysi hjá þeim sem eru á aldrinum 25 til 54 ára um 0,6 prósentustig eða úr 7,1% í 6,5%. Atvinnuleysi minnkaði einnig hjá þeim sem eru á aldrinum 55 til 74 ára eða um eitt prósentustig, úr 4,4% á öðrum ársfjórðungi 2020 í 3,4% á öðrum ársfjórðungi 2021.
Færri utan vinnumarkaðar
Á öðrum ársfjórðungi 2021 voru 52.100 manns utan vinnumarkaðar eða 19,8% af mannfjölda 16-74 ára. Af konum voru 30.900, eða 24,2%, utan vinnumarkaðar og af körlum voru 21.200 utan vinnumarkaðar eða 15,6%. Til samanburðar þá voru á sama ársfjórðungi 2020 57.700 utan vinnumarkaðar eða 22,1% af mannfjölda. Af konum voru 33.900 eða 26,9% og af körlum voru 23.800 utan vinnumarkaðar eða 17,6%.
Af þeim sem voru utan vinnumarkaðar á öðrum ársfjórðungi 2021 voru flestir (17.900) á eftirlaunum eða 34,3%, 12.700 voru öryrkjar (24,5%), 7.500 voru nemar (14,4%) og 5.500 manns voru veikir eða tímabundið ófærir til vinnu (10,5%). Um 2.600 þeirra sem voru utan vinnumarkaðar töldu sig vera atvinnulausa eða 5,1%. Þessir einstaklingar teljast þó ekki atvinnulausir í niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar þar sem þeir uppfylla ekki skilgreiningu rannsóknarinnar á atvinnuleysi. Meginstaða þeirra sem eru utan vinnumarkaðar byggist á því hvernig þátttakandi rannsóknarinnar skilgreinir sig sjálfur. Um 3.500 manns voru heimavinnandi eða í fæðingarorlofi, eða 6,8%, og um 2.300 manns, eða 4,4%, skilgreindu stöðu sína með einhverjum öðrum hætti.
Fleiri vinna eitthvað i fjarvinnu
Á öðrum ársfjórðungi 2021 vann að jafnaði 48,8% launafólks á aldrinum 25 til 64 ára aðalstarf sitt venjulega eða stundum í fjarvinnu heima. Þar af vann 10,3% launafólks aðalstarf sitt venjulega í fjarvinnu heima en 38,5% launafólks vann stundum í fjarvinnu. Þetta er aukning frá fyrra ári þegar 40,2% launafólks á aldrinum 25 til 64 ára sinnti aðalstarfi að einhverju leyti í fjarvinnu heima, 5,9% vann þá venjulega fjarvinnu og 34,3% stundum. Fjarvinna heima tekur aðeins til vinnu sem tengist aðalstarfi einstaklinga en ekki til heimilisstarfa eða annarra starfa heima við.
Þegar skoðaðar eru vinnustundir á öðrum ársfjórðungi 2021 sést að launafólk á aldrinum 25 til 64 ára vann 39,5 klukkustundir að jafnaði í hverri viku. Þeir sem sinntu eitthvað fjarvinnu heima unnu 40,4 klukkustundir en þeir sem aldrei sinntu fjarvinnu heima unnu 38,7 klukkustundir. Til samanburðar vann launafólk á aldrinum 25 til 64 ára að jafnaði 39,9 klukkustundir á öðrum ársfjórðungi 2020, þeir sem unnu eitthvað heima unnu 41,1 klukkustund og þeir sem sinntu starfi sínu aldrei heima unnu 39,1 klukkustund að jafnaði.
Á öðrum ársfjórðungi 2021 vann launafólk, sem eitthvað vann fjarvinnu heima, að jafnaði 13,5 klukkustundir frá heimili sínu eða um 36,4% af unnum stundum sínum. Á öðrum ársfjórðungi 2020 vann launafólk, sem eitthvað vann í fjarvinnu, 18,9 stundir að jafnaði heima eða 49,3% af unnum stundum.