FRÉTT VINNUMARKAÐUR 03. FEBRÚAR 2022

Helstu niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands fyrir fjórða ársfjórðung 2021 sýna að staða vinnuafls á íslenskum vinnumarkaði hefur batnað nokkuð frá árinu áður. Það má til dæmis sjá á því að hlutfall starfandi hefur hækkað og atvinnuleysi minnkað en um leið sést enn töluverð fjarvera frá vinnu.

Hlutfall mannfjölda 16 til 74 ára á vinnumarkaði, eða atvinnuþátttaka, mældist 78,6% á fjórða ársfjórðungi 2021 sem er aukning um 2,5 prósentustig frá sama ársfjórðungi 2020. Fjöldi starfandi á fjórða ársfjórðungi 2021 var 200.500 manns og var hlutfall starfandi af mannfjölda 75,1%. Frá fjórða ársfjórðungi 2020 til fjórða ársfjórðungs 2021 fjölgaði starfandi fólki um 16.100 manns og hlutfall þess af mannfjölda hækkaði um 4,8 prósentustig. Hlutfall starfandi kvenna var 72,1 % og starfandi karla 77,9%. Starfandi konum fjölgaði um 7.200 og körlum um 8.900. Hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu var 75,8% og utan höfuðborgarsvæðis 73,8%.

Til samanburðar voru 184.400 starfandi á fjórða ársfjórðungi 2020 og hlutfall af mannfjölda 70,3%. Hlutfall starfandi kvenna var þá 67,7% og starfandi karla 72,7%. Þá var hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu 70,6% og 69,8% utan höfuðborgarsvæðisins.

Af starfandi fólki á fjórða ársfjórðungi 2021 voru 147.100 í fullu starfi, eða 73,4%, og 53.400 í hlutastarfi eða 26,6%. Fólki í fullu starfi fjölgaði um 10.100 frá fjórða ársfjórðungi 2020 og fjöldi fólks í hlutastörfum jókst um 6.000. Af starfandi konum voru 60,8% í fullu starfi á fjórða ársfjórðungi 2020 og 84,3% af starfandi körlum. Af þeim sem voru í hlutastarfi á fjórða ársfjórðungi 2021 voru um 9.300 manns sem teljast vinnulitlir eða 4,6% af öllum starfandi. Til vinnulítilla telst fólk í hlutastarfi sem bæði getur og vill vinna meira.

Talsverðar fjarvistir frá vinnu
Á fjórða ársfjórðungi 2020 voru að jafnaði um 22.600 starfandi fólks fjarverandi frá vinnu alla viðmiðunarvikuna eða 11,3% allra starfandi. Þetta er talsverð breyting frá fjórða ársfjórðungi 2020 þegar 15.500 manns, eða 8,4%, voru fjarverandi frá vinnu. Hlutfallið er í raun það mesta sem mælst hefur á fjórða ársfjórðungi. Eins og sjá má voru fjarvistir einnig miklar á þriðja ársfjórðungi 2021 eða um 24%.

Helsta ástæða fjarvista er að öllu jöfnu einhvers konar frí og veikindi fólks. Ætla má að kórónuveirufaraldurinn hafi haft talsverð áhrif á fjarvistir hvort sem um er að ræða veikindafjarvistir eða fjarvistir vegna breytinga í vinnuskipulagi. Þá hefur fjölgun fæðinga á Íslandi væntanlega einnig aukið fjarveru vegna fæðingarorlofs og feðraorlofs.

Stytting vinnutíma
Á fjórða ársfjórðungi 2021 var meðalfjöldi heildarvinnustunda á viku 36,1 klukkustund hjá þeim sem voru við vinnu í viðmiðunarvikunni, 31,6 stundir hjá konum og 39,9 stundir hjá körlum. Til samanburðar var meðalfjöldi vinnustunda 37,9 klukkustundir á fjórða ársfjórðungi 2020, 34,1 stund hjá konum og 41,1 stund hjá körlum.

Heildarvinnustundir á viku voru því færri en á sama ársfjórðungi 2020 og styttist vinnutími starfandi fólks um tæpar tvær klukkustundir á viku. Konur unnu að jafnaði 2,5 stundum skemur og karlar um 1,2 stundum skemur en á fjórða ársfjórðungi 2020.

Allir starfandi voru einnig spurðir um venjulegar vinnustundir, það er hversu margar stundir unnar eru að jafnaði í venjulegri viku óháð því hvort fólk var við vinnu í viðmiðunarviku rannsóknarinnar eða ekki. Þegar þær stundir eru skoðaðar sést að mældar vinnustundir eru færri en venjulegar vinnustundir, en að jafnaði telur fólk að það vinni um 37,7 stundir í því sem kalla má venjulegri viku.

Ástæður þess að starfandi fólk vann færri vinnustundir en venjulega má sjá í töflunni hér að neðan. Þó faraldurinn sé nefndur sérstaklega frá fyrsta ársfjórðungi 2020 er ekki þar með sagt að hann hafi ekki haft áhrif á aðrar ástæður sem nefndar voru.

Töluverður samdráttur í atvinnuleysi
Á fjórða ársfjórðungi 2021 töldust að meðaltali 9.300 einstaklingar vera atvinnulausir eða um 4,4% af heildarvinnuafli 16-74 ára. Atvinnuleysi kvenna var 3,6% og karla 5,1%. Til samanburðar voru um 15.100 einstaklingar atvinnulausir á fjórða ársfjórðungi 2020 og var hlutfall þeirra af vinnuafli þá 7,6%.

Sé horft til aldurshópsins 16 til 24 ára var atvinnuleysi 7,8% sem er nokkur lækkun frá sama ársfjórðungi árið 2020 þegar það var 10,1% eða um 2,3 prósentustig. Á tímabilinu minnkaði atvinnuleysi hjá þeim sem eru á aldrinum 25 til 54 ára um 4,2 prósentustig eða úr 8,3% í 4,1%. Atvinnuleysi minnkaði einnig hjá þeim sem eru á aldrinum 55 til 74 ára eða um 0,8 prósentustig, úr 4,1% á fjórða ársfjórðungi 2020 í 3,3% á fjórða ársfjórðungi 2021.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1284 , netfang kannanir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.