Efnahagur

Þjóðhagsreikningum er ætlað að gefa eins konar heildarmynd af efnahagsstarfseminni í þjóðarbúskapnum. Lykilstærðin er landsframleiðslan sem sýnir þau verðmæti sem verða til sem afrakstur af starfseminni og ætluð eru til endanlegra nota. Unnt er að meta þessi verðmæti með tvennum hætti, annars vegar þegar eða þar sem þeim er ráðstafað eða þar sem þau myndast. Er því ýmist talað um ráðstöfunaruppgjör eða framleiðsluuppgjör. Ráðstöfunaruppgjörið sýnir skiptingu landsframleiðslunnar í einkaneyslu, samneyslu, fjármunamyndun og utanríkisverslun. Framleiðsluuppgjörið sýnir aftur á móti í hvaða atvinnugreinum landsframleiðslan myndast.